fimmtudagur, mars 02, 2006

Öskudagurinn undarlegi...

er nú liðinn. Var frekar furðulegur því ég vaknaði með hausverkinn gamla ekkigóða. Um hádegi þurfti svo að sækja yngstu dótturina í skólann vegna hausverkjar og slappleika. Um tvö kom svo prinsinn heim, með hausverk og niðurgang. Frekar fúll dagur!
Til að bæta gráu ofan á svart gleymdi ég svo að hringja í systur mína sem á afmæli í dag! FYRIRGEFÐU elsku Gyða mín!

Öskudagur er frekar undarlegur á Íslandi, börn vita ekki hvað öskupokar eru en ganga í hús og vilja fá nammi fyrir söng, sem þau hafa ekki æft. Ég er á móti þessu og hengi miða á útidyrnar "ekki gefið nammi fyrir söng" og slepp því við að hlaupa 50 ferðir til dyra.
Börnin mín fá heldur ekki að ganga í hús, en með árunum hef ég aðeins mildast og þau fá að fara í fyrirtæki og syngja.
Dætur mína heyrðu mig eitthvað tala um að börn ættu að vera búin að æfa sönginn og leggja metnað í að gera þetta vel ef þau á annað borð vildu fá nammi. Þær voru ekki búnar að æfa söng svo þær gripu flauturnar sínar og spiluð á þær, spurning hvort þær haldi af stað með kornettið og fiðluna að ári. Frumkvæði og metnaður- ég er svo stollt af þeim!
ekki má gleyma að litli prins kom með "öskupoka" heim úr leikskólanum sem hann saumaði sjálfur! Húrra fyrir leikskólakennurunum hans.