fimmtudagur, apríl 20, 2006

Af hverju þarf að lemja á sama...

einstaklingnum aftur og aftur?
Ég fór með yngstu dóttur mína í reglubundna sex mánaða eftirlitið í dag. Helv...æxli komið einu sinni enn. Hvers vegna þarf barnið að ganga í gengum þetta aftur? Er ekki nóg að vera búin að fara í tvær aðgerðir og láta fjarlægja þrjú æxli? Ég vissi alltaf að dúllan mín væri sérstök (enda lík mömmu sinni) en þetta er nú farið að ganga út í öfgar. Svona æxli greinast yfirleitt bara einu sinni í einstaklingi og þá um unglingsaldur. En ekki hjá dúllunni minni ónei, hún greinist fyrst um 4ra ára, síðan 7 ára og nú að verða 10 ára. Hún er víst einsdæmi í heiminum skildist mér í dag... ég hefði nú alveg verið til í að sleppa henni við að vera svona rosalega sérstök! Eftir þessar fréttir í dag reynum við að brosa og vera sterkar en erum í raun skíthræddar! Bíðum bara eftir hringingu frá sjúkrahúsinu um hvenær aðgerðin verði gerð. Þetta er mjög vandasöm aðgerð því kjálkabeinið er nærri í sundur (æxlið étur sig í gegnum beinið) og svo liggur æxlið mjög nálægt taugum. Það hefur blessast síðustu tvö skipti að komast að æxlum án þess að rekast í taugarnar og við vonum að svo verði einnig núna. Sem betur fer er Sævar frábær læknir sem hefur fylgt okkur í gegnum þetta allt saman og fylgist vel með dúllunni. Veit ekki hvar við værum án hans.
Fjandans þungnlyndispúkinn spratt upp á afturlappirnar í dag af fullum krafti og hrópaði af gleði enda eygði hann von um góða daga framundan- helvítið skal þó ekki hafa betur því ég verð að koma dúllunni minni í gegnum þetta ferli allt aftur...