fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Beðið eftir póstinum...

Stóra dóttla er búin að bíða í heila viku eftir umslagi frá ríkislögreglustjóra – loksins kom það í dag! Umslagið innihélt auðvitað ÖKUSKÍRTEINIÐ! Loksins búin að taka prófið þó aldrinum hafi verið náð í nóvember sl. ekki stressuð á þessu dúllan. Hún rúntar nú um þorpið og höfðuborgina á STRUMPARÚTUNNI því BLÁMANN andaðist áður en hún náði að keyra hann (hún var reyndar ótrúlega glöð með það því hann er víst svo ljótur!)

Nú er að hefjast vetrarfrí hjá grunnskólagenginu mínu á morgun, þau ætla að vera hjá ömmu og afa fram á sunnudag – þá tekur stóra systir við þeim og gætir fram á þriðjudag – pabbinn verður mikið til í vinnunni og mamman ætlar að skella sér til Northampton því hún er í vetrarfríi til miðvikudags! Úff- ég hlakka svo til að ég get varla sofið, þarf samt að læra áður en ég fer á föstudagsmorgun. Af hverju ? – jú það datt einum kennaranum í hug að hafa próf fyrsta dag eftir vetrarfrí – svo við hefðum eitthvað að gera í fríinu! Óþolandi hugulsemi alveg hreint. Ég þarf líka að fara á fund hjá Leikfélagi Ölfuss annað kvöld, allt að fara í gang núna, búið að finna leikrit og alles, ég ætla hins vegar ekki að segja mikið því ég lofaði að tala helst ekki neitt fyrr en seinnipart á föstudag svo hægt væri að tala stanslaust fram á þriðjudagsmorgun – fyrir þá sem ekki hafa áttað sig á því þá er ég á leið til Ljúfu!

Skyndiákvarðanir rokka!