mánudagur, janúar 16, 2006

Loksins kominn mánudagur...

syni mínum til mikillar gleði. Hann er búinn að spyrja daglega í heila viku hvenær komi mánudagur. Mánudagar eru uppáhalds dagarnir mínir mamma, segir hann. Þá er fótboltaæfing og ég er aðal kappinn! bætir hann svo við. Ekki vantar sjálfsálitið í drenginn, enda gullpungur! Garðar þjálfari á mikið hrós skilið fyrir hversu vel honum tekst að hafa stjórn á 4-5 ára grislingum og það með 20+ stk í einu!
Ég væri alveg til í að hafa mánudaga alla daga þegar líður að kvöldmat því drengurinn kemur heim af æfingu, fer í bað, borðar og er svo sofnaður! Kannski ekki skrýtið þar sem æfingin er ekki fyrr en kl 17. þannig að dagurinn er búinn að vera langur og strangur.
Mér fannst ótrúlega gaman að fylgjast með æfingunni áðan (í fyrsta sinn, pabbinn fór síðast) og sjá hversu duglegur guttinn er að hlaupa og sparka og allt það! Ekki nokkur leið að sjá að eitthvað hafi verið að fótunum hans. Hann verður nú aldrei afreksmaður í fótbolta sagði doktorinn víst einhvern tíma, við skulum nú sjá til með það! Hann lætur nú ekki stöðva sig svo auðveldlega þessi elska... eða eins og vinkona mín orðaði það á æfingunni áðan: hann er kraftaverka barn!
Nú er ég sennilega búin að monta mig nóg í bili.