þriðjudagur, júlí 31, 2007

Eitthvað klukk dæmi í gangi...

og ég á víst að gefa upp 8 staðreyndir um mig að beiðni/klukki Magnþóru.

1. Ég vinn um 85 klst á viku þetta sumarið
2. Golfararnir "mínir" færðu mér utanlandsferð sem þakkir fyrir vel heppnað meistaramót
3. Ég sakna Kærustunnar og Ljúfu ótrúlega mikið
4. Ég "skírði" alla kálfana hans afa ásamt Gumma frænda þegar ég var lítil, afa til lítillar ánægju enda var fjósið á floti!
5. Ég hef í gegnum tíðina verið með appelsínugult, grænt, rautt, brúnt og ljóst hár
6. Mér finnst fuglar ógeðslegir (nema dauðir kjúklingar ég borða þá með bestu lyst)
7. Bridget Jones er uppáhalds bóka/kvikmyndapersónan mín
8. Ég fékk nýlega rosaleg fiðrildi í magann sem vilja ekki fara...

mánudagur, júlí 30, 2007

Mér finnst rigningin góð...

því ég fékk tækifæri til að heimsækja Ljúfu bæði föstudags og laugardagskvöld. Ég gat líka heimsótt frænku mína. Í dag fór ég svo með gullpungnum að versla, út að borða og í bíó, já mér finnst rigningin góð!

Hvað er þetta með kvikmyndahúsin annars, við fórum að sjá Simpson með íslensku tali (barnasýningu að ég hélt) en áður en myndin byrjaði voru þrjár bílslysaauglýsingar með áróðri gegn hraðakstri - í öllum tilfellum ungir strákar sem drápu sætar stelpur í slysi og einn sjálfan sig líka. Maður var eiginlega í þunglyndiskasti áður en myndin byrjaði! Svo í hléinu var bara spiluð íslensk tónlist sem er fínt en lagavalið undarlegt... textinn ,,mér er sama hvort í blokkum sé öryrkja lyfta, bara ef ég fæ rettu og kók,, og svo lag um það sem gerist í aftursæti á rauðum bíl - tveir ca 12 ára drengir sátu fyrir aftan mig og voru greinilega að hlusta því annar segir: hei, það er verið að syngja um að ríða í aftursætinu! Kúl maður! Hver er markhópurinn á sýningu á teiknimynd með ísl tali ?

Bráðum ætla ég að setja inn myndir sem sýna hvað ég er rosalega góð og á fallegan en örlítið skakkan geislabaug!

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Loksins smá tími...

til að drekka úr kaffibolla með kærustunni í morgun, hitti pabba og frú augnablik á planinu og Ljúfu í þrengslunum þegar hún var á leið í hellaskoðun og ég til vinnu. Vonandi að maður geti farið að sjá framan í vinina lengur en 20 mínútur í einu!
Okkur hjónunum var svo færð utanlandsferð á sunnudaginn sem við getum vonandi notað sem fyrst!

sunnudagur, júlí 01, 2007

Frábær helgi...

enda fórum við í útilegu. Tjaldvagninn var fenginn að láni hjá tengdó á fimmtudag og honum plantað á golfvellinum (í trjálundi ekki á braut). Við höfum það því bara huggulegt og þurfum ekki að keyra fram og til baka. Um helgina var kvennamót og mikið að gera í skálanum, ég skellti mér svo í hlutverk mótastjóra og vallarstjóra svo það var nóg að gera en líka ofboðslega gaman enda frábært veður. Sem betur fer voru karlinn, litla-stóra systir, Sólrún mín og yngri unglingurinn á staðnum til að hjálpa mér.
Mér gekk ágætlega að plumma mig á þessum verkefnum - nema kannski sem vallarstjóri því þegar ég fór til að vökva green-ið á 3.braut vildi svo skemmtilega til að kraninn er í holu lengst ofan í jörðu. Ég mátti því stinga hausnum og höndum ofan í holuna til að ná að skrúfa frá - var svo klár að skrúfa allt í botn þannig að slangan hrökk af stútnum svo það kom þessi fíni gosbrunnur beint framan í mig! Ég get því með sanni sagt að ég hafi farið í sturtu á 3ja greeni ;o) því ég hló svo mikið að ég færði mig ekki frá bununni heldur grenjaði ég af hlátri.
Ég vildi helst eiga mynd af þessu atriði - hálf ofan í holu með rassinn út í loftið og fá þennan fína gosbrunn framan í mig... já nú kom þvottavélin að góðum notum því ég leit út eins og hálfdrukknuð moldvarpa þegar ég kom til baka í kofann!