miðvikudagur, apríl 26, 2006

Hér vantar strætó...

eða rútuferðir. Í gær þurfti ég að komast til Reykjavíkur í matarboð hjá dóttlu í skólanum. Þurfti því að fá far í Hveragerði til að komast í rútu, hér er ekki rúta nema þegar dallurinn kemur úr Eyjum! Frábær matur annars hjá nemum MK.
Í dag vantar mig að komast á Selfoss til að kaupa mér garn, það fæst ekki garn í þessu þorpi! hvaða helv.. vitleysa er það? En það er ekki rúta og ég kemst ekki rassgat... vona svo sannarlega að Blámann fari að koma úr viðgerð svo ég geti farið þangað sem ég vil þegar ég vil. Ljóta djö..dellan að hér verði maður að eiga bíl til að komast eitthvað í burtu því samgöngur eru engar... Legg til að þetta verði tekið á stefnuskrá allra flokka fyrir kosningar! Hafið það í huga kæru vinir og ættingjar sem eruð í framboði - mitt atkvæði fá þeir sem gera eitthvað fyrir mig og mína í samgöngum og skólamálum...
Samfylkingin bauð mér að koma á stefnumótunarfund í gær á sama tíma og maturinn var hjá dóttlu, annars hefði ég nú skellt mér. Alltaf gaman þegar maður fær símtal frá forystumanni flokks og er boðið, þó svo að viðkomandi hafi haldið að ég væri "framsókn eins og pabbi" en ég gæti þá alveg eins verið "sjálfstæðis eins og tengdó" en ég benti á að ég væri sennilega pólitískt viðrini!

mánudagur, apríl 24, 2006

Til hamingju ...

Ísland með að ég fæddist hér! fyrir þrjátíuogþremur árum...

sunnudagur, apríl 23, 2006

Þunglyndispúkinn ...

er frekar erfiður við mig þessa dagana. Rúmið er ótrúlega freistandi staður og alveg sama hvað mig langar á fætur þá er eins og ég sé föst við sængina. Karlinum mínum tókst reyndar að ná mér á fætur um tvö leytið í dag og drösla mér út. Við skutluðum elstu dótturinni (eina barnið heima um helgina) í Kringluna, fórum svo í bíó, borðuðum á Nings og kíktum í kaffi til Þrúðar frænku og Guðjóns í Mosó. Það er alltaf gott fyrir sálina að koma þangað í kaffi og spjall. Sóttum svo dóttlu í hesthúsið til kærastans og brunuðum heim rétt um miðnætti. Nú er spurning hvort ég geti sofnað og drattast á fætur á morgun til að lita hárið á mömmu áður en hún fer út. Svo er von á einhverjum í afmæliskaffi þar sem ég verð víst 33ja ára á mánudag...
BTW ef þú ert tengdafaðir minn þá langar mig ennþá í bókina sem ég bað um í jólagjöf en enginn sá ástæðu til að gefa mér þá :-) (sjá færslu í nóv)

föstudagur, apríl 21, 2006

bjargvættir dagsins...

eru snillingarnir í Gildrunni. Dró fram diskinn Gildran í 10 ár og skellti í tölvuna. Þessir menn eru snillar - hvað varð eiginlega af þeim?
Það er alveg sama hvernig dagsformið er, það er alltaf eitthvað sem hittir í mark

Hvað má kyssa
og knúsa þig fast
Án þess þú kveinkir
þér og kvartir
Litla fjöreggið mitt

Hvað má strjúka þér
og stara á þig lengi
án þess þú verðir
styggur og stúrinn

Litla fjöreggið mitt
Litla fjöreggið mitt

Hvað má lífið greiða
þér þung högg
Án þess þú beygir
Beygir af og brotnir

Hvað má strjúka þér
og stara á þig lengi
Án þess þú verðir
styggur og stúrinn

Litla fjöreggið mitt
Litla fjöreggið mitt

Hvað má lífið greiða
þér þung högg
Án þess þú beygir
Beygir af og brotnir

Robbie minn er líka góður enda heldur hann geðheilsu minni stundum þokkalegri dögum saman og er nokk sama hvaða diskur á í hlut. Experience the divine með Bette Midler er líka góður og hefur verið einhver besta fjárfesting í tónlist til þessa (fyrir utan Robbie auðvitað).
En allavega þá hangi ég upprétt í augnablikinu (reyndar sitjandi) þó reynist rúmið alltaf meira og meira freistandi með mjúku sænginni og myrkrinu sem getur faðmað mig og lokað allt og alla úti...

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Af hverju þarf að lemja á sama...

einstaklingnum aftur og aftur?
Ég fór með yngstu dóttur mína í reglubundna sex mánaða eftirlitið í dag. Helv...æxli komið einu sinni enn. Hvers vegna þarf barnið að ganga í gengum þetta aftur? Er ekki nóg að vera búin að fara í tvær aðgerðir og láta fjarlægja þrjú æxli? Ég vissi alltaf að dúllan mín væri sérstök (enda lík mömmu sinni) en þetta er nú farið að ganga út í öfgar. Svona æxli greinast yfirleitt bara einu sinni í einstaklingi og þá um unglingsaldur. En ekki hjá dúllunni minni ónei, hún greinist fyrst um 4ra ára, síðan 7 ára og nú að verða 10 ára. Hún er víst einsdæmi í heiminum skildist mér í dag... ég hefði nú alveg verið til í að sleppa henni við að vera svona rosalega sérstök! Eftir þessar fréttir í dag reynum við að brosa og vera sterkar en erum í raun skíthræddar! Bíðum bara eftir hringingu frá sjúkrahúsinu um hvenær aðgerðin verði gerð. Þetta er mjög vandasöm aðgerð því kjálkabeinið er nærri í sundur (æxlið étur sig í gegnum beinið) og svo liggur æxlið mjög nálægt taugum. Það hefur blessast síðustu tvö skipti að komast að æxlum án þess að rekast í taugarnar og við vonum að svo verði einnig núna. Sem betur fer er Sævar frábær læknir sem hefur fylgt okkur í gegnum þetta allt saman og fylgist vel með dúllunni. Veit ekki hvar við værum án hans.
Fjandans þungnlyndispúkinn spratt upp á afturlappirnar í dag af fullum krafti og hrópaði af gleði enda eygði hann von um góða daga framundan- helvítið skal þó ekki hafa betur því ég verð að koma dúllunni minni í gegnum þetta ferli allt aftur...

sunnudagur, apríl 16, 2006

Allt gekk vel...

og fermingarbarnið loksins að koma niður á jörðina. Fannst svo gaman að öllu þessu tilstandi (nema að eiga að tala í veislunni). Súpan tókst rosalega vel, þónokkrir gestanna urðu hissa þegar boðið var uppá íslenska kjötsúpu! En hvað um það allir fóru heim saddir og sælir. Myndlistarsýning fermingarbarnsins vakti mikla athygli og var haft á orði að sölusýning yrði að vera á næstunni... Hárgreiðslan tókst vel hjá okkur Dídí (16 ára vinkona) og kjóllinn sem ég prjónaði var frábær þó ég segi sjálf frá og var flottur við buxurnar sem mamma saumaði... það kom bara rosalega vel út að gera þetta allt sjálf með góðri aðstoð mömmu :=) Veit ekki hvernig ég hefði farið að án hennar!

Nú sitjum við gamla settið heima og pössum litla frænda sem kom með okkur heim úr veislunni. Hann er nú meira krúttið... sefur vært úti í vagni núna meðan aðrir troða sig út af páskaeggjum. Ég held mig þó að mestu við kaffidrykkju til að hanga vakandi, er ekki vön að þurfa að vakna á nóttunni til að gefa pela og fara svo á fætur löngu fyrir hádegi ;=) Kemur sennilega í veg fyrir að maður spái í frekari barneignir enda nóg að eiga fjögur heilbrigð börn...
Spurning samt hvernig kaffidrykkjan og súkkulaðiátið fara í mann, það á víst að örva konur (sjá síðustu færslu)!

föstudagur, apríl 07, 2006

Kaffi örvar konur...

Bandarískir vísindamenn hafa komist að því að kaffibolli getur kveikt í konum. Vísindamennirnir komust að þessari niðurstöðu eftir að hafa framkvæmt tilraun á rottum. Þeim var gefin koffínskammtur og í ljós kom að hann hafði áhrif á þann hluta heilans sem örvar konur kynferðislega. Aldeilis merkileg niðurstaða.
Og hvort sem þetta er satt eða rétt þá gefur rannsóknin vísbendingu um að kaffi sé ekki alslæmt, eins og stundum er reynt að halda fram. Fátt er betra að hefja daginn með en góður kaffibolli - nema kannski kynlíf og það er nú ekki alltaf í boði. Bestur er bollinn með sterku kaffi og heitri mjólk, kaffi latte eins og Ítalir kalla drykkinn.
Las Kaffikella í Birtu...

fimmtudagur, apríl 06, 2006

skemmtileg leikrit...

í Grunnskólanum í kvöld. 8.bekkingar voru með frumsamið leikrit sem vakti mikla lukku og skemmtu foreldrar sér hið besta enda verkið um börnin og grín gert að foreldrum þeirra (nokkrum allavega). Síðan voru 9. og 10.bekkur með sín atriði sem voru líka nokkuð skemmtileg. Ég hlakka til að sjá útskriftarsýningu 10.bekkjar í vor en þau eru að æfa Grease! Auðvitað er Danni þar, enda frábær drengur þar á ferð. Mæli með að allir skelli sér til að sjá þau.

Háhýsi höfuðborgarinnar...

mætti staðsetja öll við Rauðavatn. Í þeim vil ég hafa allar helstu verslanir og þjónustu sem landsbyggðarfólk þarf að sækja til Reykjavíkur.
Þið sem þekkið mig vitið að mér leiðast verslunarleiðangrar og vill helst gera lista yfir hvað vantar og raða honum svo upp eftir því hvernig ég keyri á milli staða á fljótt og örugglega.
Enívei, ég fór til Reykjavíkur á þriðjudag til að kaupa það sem vantar fyrir ferminguna hjá næst elstu dótturinni. Úff, var komin í fyrstu verslunina kl 9 og auðvitað ekki búin að finna kvittunina sem ég átti að hafa með mér til að geta fengið afhentar vörurnar sem ég pantaði í febrúar. Afgreiðslukonan vorkenndi mér hins vegar þegar ég sagðist hafa gleymt kvittuninni á eldhúsborðinu um morguninn og ætti heima fyrir austan fjall. Gvuuð, ég get ekki sent þig heim eftir henni sagði hún þá og hóf leit í tölvukerfinu til að finna nótuna mína þar.
Svo mátti ég ferðast fram og aftur um höfuðborgina í leit að hlutum því eitthvað hafði starfsfólk hinna ýmsu verslana misskilið mig í símanum, því það var alls ekki til það sem átti að vera til.
Ef ég réði þá væru Blómaval, Húsasmiðjan, Bónus, Bókabúð, Kaffihús, ZikZak, Skór.is, IKEA, Föndra, Prjónabúð og H&M staðsettar við Rauðavatn, þá þyrfti ég ekki að fara inní höfuðborgina nema til að heimsækja ættingja og vini. Best væri að ég fengi nauðsynlegar verslanir austur fyrir fjall! Að vísu eru einhverjar á Selfossi og í Hveragerði en úrvalið er ekki það sama. Ég vill ekki þurfa að versla í Reykjavík!

Bláminn var á undanhaldi en tók smá bakkipp við þessa helv... ferð. En það var æðislegt að fara út í gærmorgun og morgun í sandrokið og ganga um þorpið mitt, ég segi því bara í lokin X-Ölfus!

miðvikudagur, apríl 05, 2006

mér leiðist...

þetta helvítis blogg, var búin að gera svo langa færslu sem neitar að koma hér inn.