mánudagur, desember 17, 2007

Það er óþolandi...

þegar ég get ekki sofið á nóttunni. Nú er kl að verða hálf sex og ég búin að lesa 2 bækur en get samt ekki sofnað. Það pirrar mig!

Litlu A og B hafa nú fengið almennileg nöfn og heita Þórunn Elísa og Freydís Ólöf. Verð að viðurkenna að ég átti í smá vandræðum í kirkjunni því ég sá ekki hvort A eða B var skírð á undan og vissi því ekki hvor héti hvað!

Þegar við komum heim var farið að róta drasli á milli herbergja þar sem elsta dóttirin er eiginlega flutt að heiman og litla systir hennar fékk herbergið. Stóran fær þó afdrep hjá bróður sínum sem bíður spenntur eftir að hún komi heim svo þau geti átt saman herbergi! Þvílíkt og annað eins dót og drasl sem fylgir þessum blessuðu börnum. Búin að henda og flokka á fullu en samt er meira en nóg eftir. Meira að segja börnin átta sig á öllum þessum óþarfa og vonast eftir að fá EKKI dót í jólagjöf (því þá er enn meira að taka til). Við erum svo með stóran poka í geymslunni af leikföngum sem börnin eru búin að pakka inn og ætla að gefa fátæku börnunum í útlöndum. Slæmt finnst þeim að ekki sé töluð íslenska í útlöndum því þau eru alveg til í að gefa töluvert af bókum líka.

Nú held ég að ég skrifi nokkur jólakort áður en ég ræsi liðið og sendi af stað í skóla og vinnu - spurning hvort ég sofni þá!

fimmtudagur, desember 13, 2007

Frændi fertugur...

var að koma út þessari líka fínu afmælisveislu hjá frænda í næstugötu. Hann varð fertugur í dag 12.12. Margt um manninn í veislunni enda á frændi ekki nema 10 eldri systkini sem mættu öll utan eitt, með maka.. svo var auðvitað "bestu frænku" boðið ;o) ásamt fleirum.
Til hamingju með daginn frændi og vonandi sé ég þig fljótlega á róló með hluta af afmælisgjöfinni frá okkur (þú verður að renna þér sjálfur á henni).

Á morgun ætla ég út að borða með stelpunum úr skólanum- það verður örugglega mjög gaman og við getum loksins talað um eitthvað annað en prófin og kennarana. Nema við verðum mjög uppteknar af einkunnunum okkar? Ég get allavega ekki verið annað en sátt með mínar einkunnir enn sem komið er allavega því ég er komin með 10 í tölvum, 9 í tölvubókhaldi, 9 í markaðsfræði (fékk 10 fyrir lokaritgerðina), 9 í rekstarhagfræði,6 í stærðfræði (mætti í prófið með 39°c hita)en á eftir að fá einkunn í ensku.

Svo er næsta partý á sunnudaginn, þá verður skírnarveisla hjá Brósa mínum því tvíburadætur hans fá loksins nöfn... það verður frábært að geta kallað þær eitthvað annað en A og B.

Á fimmtudaginn 20.des kemur svo Sandra systir heim frá Slóveníu þar sem hún er búin að vera síðan í byrjun sept sem skiptinemi. Hún á einmitt afmæli þennan dag svo það verður afmælismatarboð hjá mömmu.

Nóg að gera í desember því tveim dögum síðar á Brósi minn afmæli ásamt Gunna frænda og Jónu frænku. Á Þorláksmessu á svo Óli frændi 18 ára afmæli og er orðin hefð hjá okkur að koma við í Stórateignum á Þorlák.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Prófum lokið...

en ekki veikindum.
Er ennþá með töluvert kvef og slím í hálsi en er öll að koma til eftir að hafa troðið í mig nokkrum kílóum af remedíum!
Lét mig hafa það að mæta í öll prófin í röð án þess að líta í bækur.
Það var bara harkan sex tekin á þetta, mætt með 39°c hita, eyrnabólgu, hálsbólgu og stíflað nef. Aumingja kennararnir og samnemendur fengu áfall við að sjá mig!
Var eins og skessa til fara og alveg ótrúlega fallega útlítandi enda var mér bent á það með orðunum;"gvöð, þú ert ótrúlega tussuleg greyið mitt".
Eitthvað fór þetta fyrir brjóstið á drengstaula sem stóð rétt hjá og sá ástæðu til að reyna að bæta fyrir orð bekkjasystur minnar með því að segja;"en, röddin er ótrúlega sexý!"
Það er kannski óþarfi að taka það fram að ég kafnaði næstum við að hlæja!

Ég ætlaði að gera svo margt skemmtilegt þegar jólafríið hæfist en held ég geymi það til morguns og leggist undir sæng.

mánudagur, desember 03, 2007

prófin hafin...

of flensan líka.
Ég mætti í fyrsta prófið í morgun eftir lítinn sem engan svefn og ekki las ég fyrir það heldur. Hef verið með hita, hálsbólgu, nefrennsli og eyrnabólgu síðstu daga... Ætla samt að reyna að láta mig hafa það að éta verkjalyf og mæta í prófið í fyrramálið og á miðvikudag. Get eiginlega ekki hugsað mér að fresta prófum fram í miðjan des. Verð þó að segja að árangurinn verður sennilega í samræmi við heilsuna - sem sagt ekki góður!

Öll snilldarráð til að losna við stíflað nef, hálsbólgu og eyrnarbólgu eru vel þegin og það sem fyrst!