laugardagur, mars 31, 2007

Notalegt laugardagskvöld..

tengdaforeldrarnir komu í heimsókn og færðu okkur frábæran saltlampa. Hann á víst að hafa góð áhrif á okkur... drukkum kaffi og spjölluðum ásamt því að skoða stórkostlegar ljósmyndir (í tölvu) teknar af tengdasyninum tilvonandi. Stórkostlegur ljósmyndari drengurinn! Ég set inn link á hann þegar síðan er tilbúin (mont). Hann er sem sagt ótrúlega klár ljósmyndari, kurteis og myndarlegur drengur (meira mont). Við hjónin erum bara sátt við hann (meira að segja pabbinn sem á þó erfitt með að stelpurnar hans séu að fullorðnast).

Á morgun er stefnan tekin á ,,dalinn" til að taka svolítið til og koma skrifstofunni í lag, svo hægt sé að byrja á bókhaldinu o.fl. Stefni á að opna veitingaskálann um mánaðarmótin apríl-maí,(á sama tíma verð ég að vinna að lokaverkefninu í skólanum), um að gera að nýta allan lausan tíma sem gefst á næstunni. Lítur út fyrir vinnusamt sumar hjá mér og jafnvel ívið meiri vinnu en það síðasta. (Já, mamma ég er búin að fá aðstoðarkonu í sumar þó ég sé enn að leita að nokkrum í afleysingar líka). Spennandi og lærdómsríkir tímar framundan - ekki laust við að ÉG hlakki til!

föstudagur, mars 30, 2007

Gengur allt ...

á afturfótunum við að laga klúbbasíðuna. Ótrúlega leiðinlegt kerfi - virkar ekkert eins og ég vil. Vildi helst breyta yfir í bloggsíðu eða almennilega heimasíðu, verst hvað heimasíður eru dýrar.

Annars er allt gott að frétta - allir komnir í páskafrí nema karlinn.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Ótrúlegt en satt...

mér tókst ekki að hafa mig í að læra fyrir prófið sem var í morgun. Mér gekk samt ótrúlega vel og svaraði öllu - annað mál hvort svörin eru rétt.
Nú þarf ég bara að gera glærukynningu um Ingólfsfjall fyrir enskutímann á morgun og færa einn mánuð í tölvubókhaldi - Svo hefst páskafríið formlega á hádegi á morgun!
Þarf reyndar að mæta í skólann á mánudag eða þriðjudag í tölvubókhald vegna mikilla veikinda í vetur (misst marga tíma úr) og kennarinn er svo yndislegur að ætla að hjálpa mér (og öðrum) þessa daga til að vinna upp það sem tapaðist ... svo kannski hefst páskafríið ekki fyrr en eftir viku.
Í dag er sól og æðislegt veður - ég er bara komin í sumargírinn!

Aðeins vika í stelpukvöld með Ljúfu á Íslandi - ég er að fara á límingunum af tilhlökkun!

þriðjudagur, mars 27, 2007

Leiðinlegir svona dagar...

eins og í dag, þegar maður á að læra fyrir próf en nennir því engan veginn. Ég bara get ekki með nokkru móti fengið mig til að opna bókina eða fletta glósunum, sennilega fer ég bara í prófið án þess að læra nokkurn skapaðan hlut...glæsilegrar einkunnar að vænta þá!

Á fimmtudag (á hádegi) verð ég svo komin í páskafrí - ég hlakka svo til!
Ótrúlega margt sem ég ætla að gera í fríinu ásamt því að læra fyrir prófin sem eru strax eftir páska, síðan hefst vinna við lokaverkefnið - reikna með að vera búin í skólanum í byrjun maí, þó kennarar tali um miðjan maí (ég ætla ekki að hanga í skólanum fram á mitt sumar!)

Nú ætla ég aðeins út á róló með syninum og hitta litlu frænkur mínar, kannski ég nenni að læra þegar ég kem inn!

fimmtudagur, mars 22, 2007

Stjörnuspá dagsins...

Af hverju ertu dapur? Það er ástæðulaust því nú er rétti tíminn til að láta slag standa og taka áhættu. Ekki nóg með það - þú átt eftir að standa þig glæsilega.

Skildi þetta tengjast nýja starfinu mínu?

miðvikudagur, mars 21, 2007

Frábær dagur...

enda gafst mér tími til að kíkja í kaffi til tengdamóður minnar, sem ég hef ekki gert síðan á jólum eða áramótum! Og ég sem á BESTU tengdamömmu í heimi!(ég skammast mín skelfilega).
Yngri börnin fóru í viðgerð til ömmu í morgun á meðan ég skellti mér í skólann. Voru svona líka fín þegar ég kom að sækja þau og auðvitað neituðu þau að fara heim...afi er að byggja stóran bílskúr og þau vilja flytja í hann.
Framundan eru próf og verkefnaskil í skólanum, það er auðvitað ekki nóg fyrir mig svo ég ætla að skella mér á námskeið á morgun og hef reynt eftir bestu getu að aðstoða kærustuna við að sauma búninga fyrir . Svo verð ég að hamast við að læra því ég ætla sko að eiga fullt af fríi þegar Ljúfa mín kemur til landsins! Þá ætlum við stelpurnar að skella okkur út að borða eins og forðum og skemmta okkur!

mánudagur, mars 19, 2007

Orðin frekar þreytt...

á endalausum veikindum á heimilinu. Hver pestin rekur aðra og börnin skiptast á að vera veik, ótrúlega slæmt skipulag!
Annars er allt í fínu hjá okkur, við hjónin skiptumst á að vera heima og fara í skóla/vinnu. Svo nota ég allan lausan tíma til að vinna heima (sem er ekki mikill). Ótrúlegt hvað lítil sakleysisleg verk eru fljót að hlaða utaná sig...

Ég er hreinlega farin að spá í að senda börnin í fóstur til ömmunnar sem getur lagað liðið á ótrúlegan hátt! Verst að það sé ekki til remedía sem er fyrirbyggjandi á ALLAR pestir!

En það er sól úti og vonandi að vorið fari að koma núna, þá verða allir svo hressir og kátir!

miðvikudagur, mars 14, 2007

Hvað segir maður við svona...

elsta barnið sótti yngsta barnið á frístundaheimilið eftir skóla í dag og fékk að vita að gullpungurinn hefði verið ÓÞEKKUR!
Hann neitaði að fara upp úr sundlauginni og þóttist ekki heyra, fór bara í kaf!
Hann neitaði að klæða sig, sagðist vera veikur með botnlangabólgu!
Aðspurður sagðist hann ekki vilja hlýða því "kerlingarnar" væru alltaf öskrandi. "mamma, þær kunna ekki að tala- bara öskra, svo ég nenni ekki að hlusta, ég fæ bara höfuðverk".
Foreldrarnir reyndu að útskýra fyrir honum að það væri samt æskilegt að hlýða "kerlingunum". (frekar erfitt samt þar sem blessað barnið hefur rétt fyrir sér með þessi sífelldu öskur)

Ertu klár...


ekki hestur, heldur klár?
Mig vantar eitthvað snilldarforrit til að halda almennilega utan um félagatal!
Þarf að vera auðvelt og fljótlegt í notkun og auðvelt að tengja saman nokkra aðila... upplýsingar óskast!

mánudagur, mars 12, 2007

Varið ykkur nú...

Stjörnuspá dagsins: Út með það. Reyndu að tjá þig um það sem þér liggur á hjarta. Stundum ertu að vernda aðra frá því sem þér finnst, en fólk er ekki eins viðkvæmt og þú heldur, og getur vel tekið þínum skoðunum.

föstudagur, mars 09, 2007

Gullpungurinn...


minn á afmæli í dag 10. mars og er orðinn 7 ára! Mér finnst ótrúlega stutt síðan hann fæddist, brölti um með báða fætur í gifsi og togaði sig áfram á höndunum! Í dag æfir hann fótbolta þrisvar í viku og gefur hinum strákunum ekkert eftir. Hann er hörku nagli þessi drengur!

þriðjudagur, mars 06, 2007

Frekar mikið um að vera...

þessa dagana. Síðasta vika og þessi hafa verið heldur klikkaðar. Það eru búnir að vera fundir og aðalfundur í golfinu, mæting á æfingu hjá LÖ, sinna stelpunum í Enjo, skólinn auðvitað og veikindi á heimilisfólki. Ég vona að ég fari að sjá fram úr verkefnunum (sem er lítil von) því það eru tvö próf á morgun og eitt í næstu viku. Svo á ég eftir að klára fundargerðir og félagatal fyrir golfið sem verður að vera klárt fyrir 15 mars. Er að vísu búin með Enjo verkefnin í bili. Skólaverkefnin hlaðast upp og svo á litla barnið mitt afmæli á laugardaginn og verður 7 ára! skil ekki hvað börnin mín eldast.