miðvikudagur, mars 29, 2006

að lesa góða bók...

getur verið gott þegar maður er blár. Ég er helblá núna og vantar góðar bækur! Hjálp, ég nenni ekki að leita eina ferðina enn á bókasafni þorpsins því það tekur mig alltaf hálfan daginn að finna eina bók, hvað þá fleiri...
Og tengdapabbi ef þú ert að lesa þetta þá er ég ekki sjálfstæðisblá!

þriðjudagur, mars 28, 2006

einu sinni var ...

auðvelt að vera ég. Það er ekki auðvelt að vera ég lengur. Stundum nenni ég ekki að vera ég, en hver á ég þá að vera?

föstudagur, mars 24, 2006

Fermingarundirbúningur og allt sem honum...

fylgir, getur verið ótrúlega skemmtilegt. Best er þó að vera með á hreinu hvað þú ætlar að gera og hvernig. Ég þessi rúðustrikaða manneskja er að klikka á þessu. Af hverju ? jú ég er ekki að nenna neinu þessa dagana. Spurning hvort að ég fái mér ekki geðprýðisljós um allt hús í stíl við pillurnar mínar! Ég er að vísu búin að gera eitthvað en skipulagið er ekki alveg til staðar, meira svona eftir minni (sem er ekki upp á sitt besta). Boðskortin loksins tilbúin og fara í póst á mánudaginn (ég nenni ekki með þau núna), sálmabók, servíettur og kerti er líka klárt... á bara eftir að sækja það en finn ekki kvittunina (held það þurfi hana til að sækja) geymi hana á einhverjum ótrúlega góðum stað, en nenni ekki að leita. Salurinn er loksins minn! fékk hringingu í morgun og staðfestingu á að ég gæti fengið salinn sem ég pantaði fyrir hálfu ári síðan... vesen þegar skipt er um eigendur á svona stöðum. Fer á morgun til að skoða, svona til að ath hvort að mínar skreytingahugmyndir gangi upp þarna. Fötin eru alveg að verða klár eða þannig, á eftir að prjóna hluta af kjólnum og sauma buxurnar, held ég biðji mömmu bara að sauma þær. Nú ætla ég að leggja mig, nenni ekki að vaka.

ég biðst afsökunar á...

að kvarta yfir flensu hjá börnunum mínum. Ég á fjögur heilbrigð börn, sem blessunarlega hafa verið heilsuhraust. En einhvernveginn er maður alltaf tilbúin að kvarta og kveina ef lífið er ekki alveg eins og manni hentar.
Eftir að hafa lesið og fylgst með bloggi hjá kunningjakonu minni þá er ekki laust við að maður fái samviskubit yfir þessu tuði og finnist það hálf aulalegt að kvarta!
Hún og maður hennar eignuðust sitt fyrsta barn í maí 2005 og hafa verið með prinsessuna á sjúkrahúsi síðan í desember þar sem blessað barnið hefur mátt berjast fyrir lífi sínu af öllum lífs og sálarkröftum. Foreldrarnir standa sig eins og hetjur og fá kraft á einhvern undraverðan hátt. Í gær kom svo í ljós "að öllum líkindum er barnið með efnaskiptasjúkdóm sem ekki er hægt að lækna". Ég vona svo innilega að læknarnir hafi rangt fyrir sér í þetta sinn!
Svo er ein vinkona mín og maður hennar að reyna að eignast barn, hafa reynt í mörg ár en ekki gengið. Nú er hún búin að fara í glasafrjóvgun og situr og bíður eftir niðurstöðum!
Í báðum þessum tilfellum er um yndislegar manneskjur að ræða sem eiga svo sannarlega skilið að lífið gangi þeim í hag, hafa svo virkilega lagt sitt af mörkum til að gera þennan heim að betri heimi. Á meðan þessar konur berjast fyrir börnum heyrir maður fréttir af því að framkvæmdar séu hundruðir fóstureyðinga á ári, og unglingar noti neyðarpilluna í stað smokka! Hvað er eiginlega að í þessu þjóðfélagi okkar?
Ég þakka mínu sæla fyrir að eiga heilbrigð börn og biðst afsökunar á að hafa kvartað yfir ómerkilegum hlut eins og flensu, kvefi og gubbupest! Þökkum heldur fyrir að ekki er um stærri vandamál að ræða...
elsku vinkonur ég óska ykkur alls hins besta á komandi mánuðum og krosslegg fingur og leggst á bæn um að allt fari á besta veg hjá ykkur báðum!

þriðjudagur, mars 21, 2006

Leiksýningar framar björtustu...

vonum. Við höfum sýnt 4x og alltaf fyrir fullu húsi, sem verður að teljast afrek hjá nýstofnuðu leikfélagi. Gagnrýnendur standa á öndinni yfir því að við skildum setja saman söng, dans og leik allt í sömu sýningunni. Það mun víst ekki eiga að vera á færi nema atvinnuleikhúsa. En við hér í þorpinu erum auðvitað snillingar! (ef þú skildir hafa efast). Síðasta sýningin verður svo á laugardagskvöldið þegar við verðum með svaka stuðdagskrá: matur sem bæjarstjórinn eldar (eru að koma kosningar?), sýningin í heild sinni með smávægilegum breytingum og að lokuð hippaball með öllu tilheyrandi. Eins gott að finna föt á karlinn, sem reyndar á afmæli þennan dag svo ég slepp við að halda honum veislu. Þið sem viljið eiga góðan dag með honum er bent á að panta ykkur miða og hitta hann í Ráðhúsinu!

Nú þarf ég að gera boðskort í ferminguna hjá næst elstu dótturinni, er víst í seinna fallinu við það, en er það eitthvað nýtt?

mánudagur, mars 13, 2006

komin til baka...

frá því að búa í Ráðhúsi Ölfuss síðustu viku... milli þess sem ég var í tölvunni að vinna að miðum og leikskrám. Frumsýning afstaðin og gekk alveg glimrandi vel eins og sýning 2. Framundan eru svo næstu sýningar og um að gera að mæta þið sem ekki hafið komið ennþá. Frábært stykki hjá okkur þó ég segi sjálf frá!
Allir sem ég hef heyrt frá eru rosalega ánægðir og fannst gaman... og sumir búnir að koma á báðar sýningarnar. Ef þið viljið skoða myndir þá eru þær hérna

Afmæli gullpungsins er afstaðið og var mjög gaman hjá honum. Hann fékk svo flott risaeðluteppi frá ömmu Birnu að það má ekki nota það! Svo fékk hann líka play station 2 tölvu frá Óla afa og nokkra leiki frá hinum ömmunum og öfunum, íþróttagalla, legghlífar(fótbolta) og fótboltaskó. Minn svona líka ánægður.

blogga meira síðar því nú þarf ég fara á fund hjá leikfélaginu því við verðum að vera með fleiri sýningar en við áttum von á!
Later

fimmtudagur, mars 02, 2006

Öskudagurinn undarlegi...

er nú liðinn. Var frekar furðulegur því ég vaknaði með hausverkinn gamla ekkigóða. Um hádegi þurfti svo að sækja yngstu dótturina í skólann vegna hausverkjar og slappleika. Um tvö kom svo prinsinn heim, með hausverk og niðurgang. Frekar fúll dagur!
Til að bæta gráu ofan á svart gleymdi ég svo að hringja í systur mína sem á afmæli í dag! FYRIRGEFÐU elsku Gyða mín!

Öskudagur er frekar undarlegur á Íslandi, börn vita ekki hvað öskupokar eru en ganga í hús og vilja fá nammi fyrir söng, sem þau hafa ekki æft. Ég er á móti þessu og hengi miða á útidyrnar "ekki gefið nammi fyrir söng" og slepp því við að hlaupa 50 ferðir til dyra.
Börnin mín fá heldur ekki að ganga í hús, en með árunum hef ég aðeins mildast og þau fá að fara í fyrirtæki og syngja.
Dætur mína heyrðu mig eitthvað tala um að börn ættu að vera búin að æfa sönginn og leggja metnað í að gera þetta vel ef þau á annað borð vildu fá nammi. Þær voru ekki búnar að æfa söng svo þær gripu flauturnar sínar og spiluð á þær, spurning hvort þær haldi af stað með kornettið og fiðluna að ári. Frumkvæði og metnaður- ég er svo stollt af þeim!
ekki má gleyma að litli prins kom með "öskupoka" heim úr leikskólanum sem hann saumaði sjálfur! Húrra fyrir leikskólakennurunum hans.