miðvikudagur, maí 23, 2007

þá er útskriftin á morgun...

og ég búin að ná í þessa líka ljótu húfu- sem er of stór, skil ekki hvað kerlingin var að gera þegar hún mældi á mér höfuðið (nema það hafi minnkað svona eftir að skólinn var búinn). En ég nenni ekki að gera neitt mál úr því, verð hvort sem er ekki með þetta á hausnum nema í nokkrar mínútur (illa nýttur peningur), en nota hann aftur á næsta ári! Ég ætla ekki að hafa útskriftarveislu þetta árið heldur aðeins að vera með kaffisopa í dalnum. Vinir og vandamenn velkomnir en engum boðið formlega að þessu sinni.

Nú er komin tími á umferð 2 í bónun á kofanum.

föstudagur, maí 18, 2007

komin heim í dalinn...

og dunda mér við að koma öllu í stand. Ótrúlega gott að vera komin aftur, hlusta á fuglasöng, sitja úti í sólinni og drekka eðalkaffi! Varla að maður nenni að vinna - þá er nú gott að vera sjálfs síns herra nú eða frú...

sunnudagur, maí 13, 2007

Góð helgi...

búin að vera hjá okkur. Byrjaði eiginlega á frábæri afmælisveislu í skálanum á föstudagskvöldið þar sem ömmur, afar og vinir voru og borðuðu með okkur "afmælispottrétt" og var setið í rólegheitum og spjallað. Laugardagurinn byrjaði svo á smá vinnu og síðan röltum við yfir róló og skelltum okkur í mat og Eurovisionstemmingu. Sunnudagurinn hófst á kaffibolla í næstugötu hjá frænda og frú Grú, um hádegi var fótboltaleikur hjá Sól og síðan var grill hjá pabba því hann á afmæli í dag. Síðan sitjum við hjónin í rólegheitum og skipuleggjum aðeins sumarið...

Það er þó ekki laust við að mér finnist ég ekki hafa neitt að gera, enginn skóli, ekki farin að vera á sólahringsvakt í skálanum, en var þó að gera smá verkefnalista (svona TO DO) fyrir morgundaginn og vikuna framundan, sennilega hef ég alveg nóg að gera- ég er bara ekki búin að átta mig á því ennþá!

miðvikudagur, maí 09, 2007

Loksins...

búin með skólann. Við skiluðum lokaverkefninu í dag, nú tekur við undirbúningur fyrir afmæli yngstu dótturinnar á morgun og föstudag (fullorðins afmæli), síðan er að gera skálann kláran því opna á völlinn á laugardag... svo nú mega hendur standa fram úr ermum! Ég ætla samt að sofa út á morgun ;0)

laugardagur, maí 05, 2007

Sit og bíð...

eftir að yngsta dóttirin komi heim af fótboltamóti, þá höldum við mæðgur af stað til ömmu og afa í Mosó þar sem okkur hefur verið boðið til kvöldverðar. Aðrir fjölskyldumeðlimir fóru í morgun því ætlunin var að hjálpa afa á mótorhjólasýningu í Borgarnesi áður en farið væri í matinn hjá ömmu. Ég hefði gjarnan viljað fara með að mótorhjólast en það gekk ekki alveg þar sem ég hef setið og unnið að lokaverkefninu... búin að tala við 20-30 manns í dag (verður geðveikur símareikningur), en reyndar var ég svo sniðug að hringja eitthvað úr gsm símanum mínum og allir sem ekki svöruðu hafa hringt í mig til baka og borga þar með símtalið sjálfir! Þá er bara hluti af úrvinnslunni eftir og klára að koma verkefninu saman.

Ég vil óska afmælisbörnum maímánaðar til hamingju öllum í einu og vona að ég gleymi ekki neinum: Þrúður Sóley 1.maí, Eiríkur tengdapabbi 4.maí, mamma 7.maí, Steini 7.maí, Snæfríður Sól 10.maí, pabbi 13.maí, Árni Birgis 13.maí, Þrúður 18.maí, Óli tengdapabbi 22.maí. Þá held ég að þetta sé komið...

föstudagur, maí 04, 2007

nújá...

Naut: Þú sérð inn í sálina á næsta manni. Hvort sem þú ert að nota sjötta skilningarvitið eða almenna skynsemi þá sérðu strax hvað liggur að baki gjörðum fólks.

Af hverju fatta ég þá ekki sjálfa mig á stundum?

fimmtudagur, maí 03, 2007

lokasprettur...

nú er allt að verða búið í skólanum og við byrjaðar að vinna að lokaverkefninu... ótrúlega spennandi verkefni. Ekki er verra að ég er mjög heppin með félaga í verkefninu, svo vonandi verður þetta bara skemmtileg reynsla.

Svo er stefnan að opna sem fyrst í skálanum, sennilega verður það um aðra helgi eða um svipað leiti og yngsta dóttirin á afmæli. Hún óskaði reyndar eftir því að "fullorðna" afmælið yrði haldið í skálanum - pabbi getur grillað handa öllum! Hún býður spennt eftir að skólanum ljúki og hún komist í dalinn... Spurning með að finna hentugt hús þar því meirihluti fjölskyldunnar vill helst vera í dalnum, alltaf!
sjáum til hvað verður...

þriðjudagur, maí 01, 2007

ja hérna hér...

var að skoða fljótt yfir evróvisíónlögin og gott ef Finnar vinna bara ekki aftur. Alveg hreint með ólíkindum hryllingurinn sem manni er boðið uppá eins og þessi eða þetta hérna ég fékk kjánahroll!