fimmtudagur, janúar 31, 2008

Löng vika...

senn á enda.
Undanfarið hef ég náð að skríða í rúmið um kl 2 og verið komin á fætur kl 6. Karlinn staddur í Berlín og ég hef því nóg að gera og hafa nokkrar áhugasamar sálir óskað eftir að fá að vita hvernig dagurinn lítur út hjá mér, til að verða við óskum þeirra hendi ég hér inn dagskrá gærdagsins og dagsins í dag:
miðvikudagur: kl 2 sofa, kl 4 vakna -kveðja karlinn (Berlín) kl 6 vakna aftur-Tinni göngutúr kl 7 vekja börn kl 7.30 keyra börn í skólann og fara til Reykjavíkur kl 8.22 skóli (bara 2 mín of sein) kl 12 fundur, snúningar kl 13 ferð heim, kl 14 -18 læra, kl 18 Gullpungur sóttur til snillings kl 18.30 elda kvöldmat kl 19.30 læra, kl 21 leikæfing fyrir Þorrablót, kl 23 læra, kl 2 sofa,Fimmtudagur: kl 6 vakna - göngutúr (stuttur vegna kulda - 8°),kl 7 vekja börn, keyra í skólann, sjálf í skólann, kl 12.30 Hafnarfjörður- vinna til 16, keyra heim stoppa í 30 mín, keyra aftur í Reykjavík (2.ferð í dag), Smáralind ath með kuldastígvél á Gullpunginn og auðvitað ekkert til í hans stærð, kl 18.30 kvöldmatur/afmæli hjá tengdasyninum (18.ára), og skrópaði á leikæfingu. kl 21.30 keyra heim aftur, göngutúr með Tinna (frekar stuttur vegna kulda -10°og vindur), lesa fyrir börnin, tala við karlinn á skype, læra, lesa tölvupóstinn og gera to do lista fyrir vinnuna. Báða dagana hef ég svo svarað ca 15 símtölum á dag, sett í þvottavél og þurrkara, uppþvottavél, moppað yfir gólf (til að sokkarnir líti ekki alltaf út eins og dauðar kanínur).

Jæja elskurnar ef þið hafið nennt að lesa þetta þá vesgú, svona eru dagarnir þessa stundina. Nú ætla ég að setjast í baðkarið og lesa stjórnun og vona að ég hangi vakandi greinina á enda því það er umræðutími á morgun kl 8.20 :o)

sunnudagur, janúar 27, 2008

Þorrablót á næsta leiti...

og dömurnar í þorpinu sennilega farnar að huga að kjólum... Stóra spurningin er þá væntanlega "kemst ég í kjólinn eftir jólin"? Mæli með að þið lesið þessa færslu hér ég fékk flott magavörkát af hlátri.

Leiðinda veður...

síðustu daga. Við höfum ekki getað farið í almennilegan göngutúr síðan á fimmtudag og komumst ekki í skólann eða til vinnu á föstudaginn vegna veðurs, ég fór þó af stað en snéri við þegar rúta og snjóruðningstæki voru föst þversum á veginum. Stuttu síðar var tilkynnt í útvarpinu að Þrengslin og Heiðin væru lokuð vegna veðurs. Það hefur ekki komið fyrir að ég komist ekki í skólann þegar ég þarf fyrr en núna þennan veturinn - akkúrat á lokaönninni og þá tvisvar á jafn mörgum vikum... leiðindi.

Ég fór loksins til læknis á fimmtudaginn til að láta kíkja á fótinn á mér - meiddi mig í sumar og varð aldrei almennilega góð, snéri mig svo aðeins í síðustu viku og er nú alveg að drepast í fætinum. Á að fara í myndatöku í bænum á morgun (átti að fara á föstudag). Gæti verið brotin, brákuð,með rifinn vöðva eða bla,bla sagði doktorinn. Ég á sem sagt að hvíla fótinn.

Í þessu leiðinda veðri nenni ég ekki neinu- sit og horfi á skólabækurnar en nenni ekki að opna þær, hvað þá að lesa og gera verkefnin sem bíða og eiga að vera klár í fyrramálið. Ég væri alveg til í smá sól núna!

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Ég fór ekki í skólann í dag...

snjórinn hafði betur að þessu sinni. Var komin vel áleiðis í Þrengslunum (eftir að hafa fest mig vel í innkeyrslunni heima og þurft að láta karlinn ýta og ýta) þegar ég snéri við, ekki búið að skafa og klukkan orðin 08.06. Léleg þjónusta það. Ekki leist mér á að halda áfram eftir að hafa bara mætt tveimur jeppum sem báðir voru utanvegar og þá meina ég lengst úti í rassgati! Hélt því heim á leið aftur og var svo heppin að þá kom einmitt ruðningstækið og ruddi leiðina heim. Skrölti því bara í rúmið aftur og lagði mig aðeins. Fór svo með Tinna út áðan, hann hoppaði eins og kengúra á meðan ég óð snjó uppí mitti á köflum! Ég misreiknaði aðeins hvar göngustígurinn var og endaði á reiðveginum - ætlaði svo yfir aftur og lenti í þvílíku basli og sökk upp að höndum! það sem Tinna fannst þetta gaman. Eftir klukkustundar basl í snjónum komum við heim aftur til að læra. Tinni hefur að vísu ekki hreyft sig og því síður litið í bók. Hann afþakkaði meira að segja útiferð með börnunum! Held hreinlega að HANN sé alveg búinn á því. Ég þarf hins vegar varla að fara í ræktina næstu daga ef gönguferðirnar verða eitthvað í líkingu við þessa.

mánudagur, janúar 14, 2008

Selfossbíó...

tótal krapp! Við fórum með börnin á The Golden Compass í gær, ekkert til að hrópa húrra fyrir en börnunum fannst hún í lagi, reddaði myndinni að Sam Elliot eilífðartöffari birtist á skjánum ;o)

Ég hélt þegar Sambíóin tóku yfir Selfossbíó að það yrðu einhverjar breytingar en svo var ekki, myndirnar ennþá sýndar aðeins úr fókus, það þarf ennþá skíðagalla og ullarteppi til að halda út heila mynd vegna kulda og auglýsingarnar eru ennþá eldgamlar. Ég hef gefið þessu bíói 4 tækifæri en nú er nóg komið!
Við hjónin komumst reyndar að því að við hefðum síðast farið í bíó í Danmörku!
Svo ekki fer Selfossbíó á hausinn þó við hættum viðskiptum - því miður.

sunnudagur, janúar 13, 2008

Eitthvað fór dagurinn...

fyrir lítið. Náði þó að vinna smá og innheimtulistinn tilbúinn. Var svo á símafundi hluta af deginum. Kláraði eitt og á tvö verkefni eftir til að "dunda" við á morgun.

Í dag var líka heilmikið ax-sjón á heimilinu enda gullpungurinn, snillingurinn og vinurinn úr næstugötu ásamt Tinna á hlaupum um húsið í miklu fjöri.
Svo kom tengdapabbi í mat og stóra dóttirin birtist óvænt með kærastann. Við hjónin fórum því ekki á spilakvöld til Gyðu eins og til stóð.
Tinni fór í fyrsta baðið í kvöld við mikinn fögnuð og áhuga fjölskyldunnar.
Á morgun (sunnudag) stendur til að fara í bíó með börnin að sjá The Golden Compass - spurning hvort við Tinni verðum heima að læra og hin fari í bíó (ég er ekki mikið fyrir ævintýramyndir)og frekar leiðinlegt að hafa mömmu með í bíó þegar hún sofnar! Gullpungurinn bauðst því til að fara næst á "svona barnateiknimynd" svo mamma gæti komið með ;o)

Nú er sennilega kominn tími til að koma sér í háttinn- þarf víst að vakna til að læra á sunnudagsmorgni - ótrúlegir þessir kennarar!

föstudagur, janúar 11, 2008

lokaönn hafin...

með hraði! Ég hélt að önnin myndi byrja eins og allar hinar- í rólegheitum, en það var ekki svo. Fékk fullt af verkefnum sem á að skila á mánudag. Úff, ég sem ætlaði að njóta þess að sofa út um helgina og gera fullt af skemmtilegum hlutum ásamt því að vinna að golf undirbúningi (ekki svo að skilja að það sé ekki skemmtilegt). Verð eitthvað að endurskipuleggja mig.

Við komumst að því í dag að Tinna finnst gaman að "spila" á trompet með yngstu dótturinni. Hún er þó ekki eins hrifin því hann vill "blása" í vitlausan enda. Þegar hún setti hann fram á gang og lokaði hurðinni sat hann þar og grenjaði þangað til hún opnaði aftur, þá sat hann og horfði dolfallinn á hana spila. Ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þeim.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Langþráð bið var á enda...

þann 28. desember því þá fjölgaði á heimilinu þegar Tinni Einarsson kom loksins. Börnin gátu því slakað á og farið að hlakka til áramótanna, sem komu með miklum hvelli- ótrúlegt hvað hægt var að skjóta miklu á loft þrátt fyrir rok og hávaðarok. Það gekk þó áfallalaust á þessu heimili sem verður varla sagt um frænda og co í næstugötu. Þar voru nágrannar svo elskulegir að gera tilraun til að skjóta bílnum og húsinu hans í loft upp- þó ekki viljandi ;O)