laugardagur, desember 30, 2006

Er að vakna aftur

eftir þriggja daga svefn... kannski ekki alveg en svona næstum því. Hef bara skottast um á náttfötunum og lesið bækur sem komu úr pökkum þetta árið. Eftir jólaboðahlaupin var það kærkomin hvíld. Við stefnum svo að því að vera heima hjá okkur á gamlárskvöld við mismikla hrifningu fjölskyldunnar.

Bækur sem ég er búin að lesa úr jólaflóðinu eru t.d. barna og unglingabækurnar: Ég er ekki dramadrottning sem var þokkaleg. Öðruvísi saga sem var allt í lagi en ekki nálæg eins góð og fyrri tvær í öðruvísi flokknum. Afi ullarsokkur stendur alltaf fyrir sínu, á svo eftir að lesa Fíusól og undan illgresinu.
Af fullorðinsbókum er ég búin með my best friend's girl eftir Dorothy Koomson sem er með betri bókum sem ég hef lesið... snilld. Ljúfa þú verður að kaupa þessa í næsta bókabúðarleiðangri (ég fékk hana í jólapakka en hún var keypt í bókabúðarleiðangir okkar í haust). Síðan er ég að lesa the devil wears prada.. hún lofar góðu. Gaddavír er ég svo búin að lesa en finnst hún ekki góð, var alltaf alveg að byrja einhvernveginn en var svo bara búin. Indjáninn fannst mér hins vegar mjög skemmtileg. Svo á ég eftir að lesa konungsbók og nokkrar aðrar en ætla eins og síðustu jól að sleppa því að lesa Eragon, það er bara ekki fyrir mig.
Nú er einn afinn kominn að ná í tvær dömur til að passa hundinn í kvöld því hann er ný kominn úr aðgerð (sko hundurinn) og settið að fara út að borða. Best að gefa honum kaffi áður en hann heldur yfir fjallið aftur.
Óska ykkur öllum gleðilegs árs og slysalaus áramót.

fimmtudagur, desember 21, 2006

bráðum koma blessuð...

jólin. Ég er enn ekki búin að finna jólagírinn en það er allt í lagi því ég fæ mér bara rauðvínsglas. Hef undanfarna 4 daga þurft að fara í borg djöfulsins... vona að ég þurfi ekki að fara fleiri ferðir á næstunni, best væri að fara ekki fyrr en skólinn hefst á ný. Er ekki viss um að tengdó yrði hrifin af því að við kæmum ekki í jólaboðið svo ég verð örugglega að fara á jóladag. Annars væri ég alveg til í ein náttfata og bóka jól. Það er eitthvað sem ég ætla að leyfa mér áður en ég verð áttræð (alltaf að setja sér langtímamarkmið).
Búið að kaupa allar jólagjafirnar en á eftir að pakka þeim, sem ég geri vonandi á morgun. Þarf líka að koma jólakortunum í póst (nenni því ekki) þarf líka að skila bókum á bókasafnið og taka til og þrífa... skreyta svo jólatréð og athuga hvort ég kemst í jólaskap. Annars komumst við Sandra systir að því að við förum eiginlega ekki í jólagír nema hlusta á gömul og góð Bubba lög... sennilega vegna þess að það var það eina sem var hlustað á á heimilinu þegar við vorum að alast upp. Óska hér með eftir að eignast alla Bubba diskana sem ég á ekki (komið og skoðið í hillurnar).

Ég reyni kannski að blogga meira á næstunni en er ekki mjög lífleg akkúrat núna. Henti bara inn einhverju fyrir Ljúfu mína, sem ég vona að haldi salómon inni fram í janúar.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Ljótan maður minn...

ekki nóg með að ég sé með sýkingu í auganu heldur fór ég í fæðuóþolsmælingu í dag. Ég fékk lista með 72 atriðum yfir hvað ég má EKKI borða! Jólin bara ónýt=ekkert svínakjöt. Ég get þó huggað mig við að ég MÁ drekka KAFFI ! og vatn... ekki bjór, hvítvín, rauðvín eða koniak (er svo sem sama um koniakið það er vont, það sama verður víst ekki sagt um restina. hikst)

Gullpungurinn söng svona líka fínt á skemmtuninni áðan, var líka svo hel"gel"aður um hárið að jólasveinahúfan náði ekki að skemma "dúið". Var svona líka fínn í jakkafötunum með bleika bindið sitt.

Sólin fór í viðgerð til ömmu í dag og ætlar að vera til morguns. Vona að ömmu takist að laga hana.

Frændi er 39 ára í dag, karlinn bara að verða gamall! Ætla að fara þangað og fá mér KAFFI (kannski eitthvað með áður en ég hætti að borða). Til hamingju með karlinn Frú Grú !

mánudagur, desember 11, 2006

Komnar einkunnir...

úr öllu nema bókfærslunni. 1x10, 3x9 og 1x8, ekki hægt að kvarta yfir því.

Enn er ég ekki búin að finna jólagírinn, en held áfram að leita... bjó mér að vísu til aðventuskreytingu áðan.

Sólin mín er enn og aftur komin með eyrnabólgu, við mæðgur erum orðnar svolítið þreyttar á þessu og óskum eftir góðum ráðum til að losna við þennan fjanda.

Gullpungurinn á að syngja á sinni fyrstu jólaskemmtun í skólanum á morgun. Hafði þónokkrar áhyggjur áður en hann sofnaði að hann myndi nú ekki allt "fjandans lagið". Var heldur ekki nógu hrifinn af því að verða að vera með jólasveinahúfu, því hún "skemmir hárið". Hann er nefnilega að safna hári og verður að fá gel og allar græjur. Hann er þó spenntastur yfir að mega fara í jakkafötin og bindið.

sunnudagskvöldið var...

notalegt og fór að mestu í að lita og klippa hárið á næst elstu dótturinni. Búið að taka helminginn af hárinu og nóg eftir enn. Hún er rosalega ánægð því nú getur hún hrist hausinn án þess að hafa á tilfinningunni að það sé steinn fastur við hana. Nú er bara fjöður sagði hún. Ég man þegar ég lét klippa svona mikið af hárinu á mér, þvílíkur munur. Hárliturinn er mildur brúnn tónn, engar drastíksar breytingar þar. Hún minnir mig reyndar alltaf meira og meira á litlu stóru systur mína sem er á Bifröst núna.

föstudagur, desember 08, 2006

Prófin búin og ég ekki komin í jólagír...

og auglýsi hér með eftir ráðum til að fá jólabakteríuna í gang. Ég er ekki í neinu jólastuði og nenni ekki einu sinni að setja upp seríur.
Síðasta prófið var í bókfærslu og hef ég hingað til tekið próf í henni uppá 10. Hélt að eins yrði núna, en þegar tíminn var að verða búinn og ég ekki búin með prófjöfnuðinn þannig að hann stemmdi varð ég óneitanlega svolítið stressuð! ég hef aldrei fengið prófkvíða og því var þetta svolítið óþægilegt... Allavega tíminn rann út og ég ekki ennþá búið að finna 235.000 sem ég týndi! Ég var ekki til í að skila prófinu fyrr en ég finndi út úr þessu og strokaði allt úr 3 sinnum en allt kom fyrir ekki, 235.000 voru bara ekki að gefa sig fram. Námsráðgjafinn kom og færði okkur nokkrar um stofu (þær með lengdan próftíma, ég fékk að fljóta með) þegar þangað var komið settist ég niður með blaðið mitt og 235.000 blasa við mér... ég var sem sagt búin að vera með reiknivélina ofan á höfðustólnum allan tímann og bara gleymdi honum! djö.... var ég fegin þegar ég fattaði þetta enda að reikna verkefnið í 4 sinn. Já það getur ýmislegt gerst í prófum ! Ég held líka að eiginmaðurinn eigi eftir að skemmta sér yfir þessu lengi, það sem maðurinn hló símann í hádeginu, bölv...stríðnispúkinn.

En nú ætla ég að greiða syninum svo hann komist í afmæli, og svo skelli ég mér aftur í bæinn til að fara með karlinum á jólahlaðborð í Viðey.

sunnudagur, desember 03, 2006

Ég heyrði á tal...

ungra stúlkna um daginn þar sem þær voru að ræða um ættingja.
Stúlka eitt: Gvöð, ég hitti svo sætan strák á ballinu og fór með honum heim.
Stúlka tvö: hefur hitt hann aftur?
Stúlka eitt: já við fórum í bíó og hann kom svo með mér heim. Veistu mamma og pabbi voru voða glöð að sjá hann!
Stúlka tvö: Nú!akkuru?
Stúlka eitt: Hann er víst strákurinn hans Nonna frænda sem er hálfbróðir pabba!
Stúlka tvö: Gvöööð, erta meinita? oj varstu að lúlla hjá frænda þínum.
Stúlka eitt: Hvernig átti ég að vita það, pabbi og pabbi hans hafa ekki talast við í einhver ár! Ég gat ekki vitað að hann væri frændi minn.
Hvert stefnir þetta þjóðfélag sem við búum í? Er ekki kominn tími til að hægja ferðina og sinna fjölskyldunni, svo börnin okkar lendi ekki í svona málum!

Ég er ekki að nenna að lesa...

fyrir próf. Ég nenni að lesa ýmislegt annað, eiginlega allt annað. Ég fann t.d. í bókaskápnum mínum bók frá 1943 sem heitir Vinsældir og áhrif eftir Dale Carnegie í þýðingu Vilhjálms Þ. Gíslasonar sem var gefin út af Fjallkonuútgáfunni (sem ég hafði nú ekki hugmynd um að hafi verið til). Svo það er nokkuð ljóst að ég hef EKKI lesið allar bækurnar sem þekja hér veggi.

föstudagur, desember 01, 2006

Jibbííííí...

síðasti skóladagurinn liðinn!
Nú eru bara prófin í næstu viku eftir ...